Tuesday, July 08, 2008

Maraþon parý

Er komin heim frá Roskilde Festivalen!!

Þetta var rosalegasta og lengsta partý sem ég hef nokkru sinni upplifað, enda orðin nett veik. Ævintýrið byrjaði fyrir rúmri viku síðan en við mættum á svæðið seinnipart mánudags. Við tjölduðum í "götunni" við hliðina á Hrönn og Jóni og vorum með nánast alla dagana. Svo bættust við hópur af Íslendingum sem þau þekkja sem við héngum með. Þau voru svona líka hrikalega skemmtileg eins og Íslendingum sæmir ;) Fyrir forvitna heita þau: Rut, Haddi, Guggi, Doddi og Einsi. Við eigum líka flottar myndir af þeim.

Fyrsta kvöldið var rólegt en við fórum í Hróaskeldu bíó á spennandi spænska mynd og gæddum okkur á poppi. Veðrið var geðveikt gott alla dagana þannig að á daginn var sólin sleikt og bjórinn teygaður. Þó að sjálf hátíðin byrji ekki fyrr en á fimmtudeginum þá er tónlist alveg frá því hátíðin opnar á sunnudeginum. Við sáum nokkur skemmtileg bönd eins og Slagsmålsklubben, When saints go machine, Casiokids og íslensku grúppuna Bloodgroup sem stóð algjörlega uppúr. Söngkonan er gella dauðans og getur sungið mjög vel þrátt fyrir mikil hopp og dans á sviðinu. Ég hef aldrei áður upplifað Hróaskeldu í góðu veðri þannig að þetta var alveg nýtt fyrir mér og mjög spennandi. Það er mjög gaman að mæta snemma á hátíðina ef það er gott veður og djamma og chilla áður en tónlistarstressið byrjar. Ég skemmti mér konunglega!!

Sjálf hátíðin var svo opnuð á fimmtudeginum og Radiohead spiluðu um kvöldið, VÁ hvað það var geðveikt! Ég vissi að þeir væru góðir því þeir hafa verið í miklu uppáhaldi hjá mér í mörg, mörg ár en ég vissi ekki að þeir væru svona rosalega góðir á tónleikum. Bestu tónleikar sem ég hef verið á. Stemningin á tónleikunum var líka ótrúlega sérstök því allir urðu bara svo glaðir og maður sá fólk faðma hvort annað þó það þekktist ekki neitt og allir voru með væmið bros á vör :)

Föstudagurinn var sá dagur sem ég og Frank sáum flesta tónleika, alls átta tónleika, stress! Ég ætla svosem ekkert að dæma alla en bara taka það sem stóð uppúr. Band of horses og Goldfrapp voru þær hljómsveitir sem mig hlakkaði mest til að sjá. Raunin varð svo að þetta voru líka bestu tónleikar dagsins. Söngvarinn í Band og horses er bara svo mikið krútt og yndislegur og tónlistin mjög falleg. Frank varð mjög hrifinn af Goldfrapp en hann þekkti þau ekkert mjög vel fyrir hátíðina. Það var líka rosalega gaman að fylgjast með Nick Cave í Michael Jackson jakkanum sínum með pornóstar lookið sitt þylja perralega texta: Get it on og ohh yeahhh haha. The Streets voru góðir og létu áhorfendurna gera allskonar kúnstir eins og: faðma hvorn annan og fara úr að ofan og setjast niður. Kvöldið var svo endað á tónleikum sem byrjuðu klukkan þrjú um nóttina með sænskum gaur sem kallar sig Familjen. Það var fáránlega skemmtilegt og ég setti met í að hoppa og dansa eins og villingur. Það þurfti að stoppa tónleikana í smá stund því sumir hoppuðu of mikið og þótti öryggisvörðunum það vera hættulegt.

Laugardagurinn var of heitur og maður sá að fólk var að verða ansi þreytt og þegar sólin faldi sig bakvið ský heyrðust þvílík fagnaðarlæti frá fólki hehe. Það sem stóð uppúr á þessum degi var Efterklang, Judas Preist fyrir að vera eighties töffari, Neil Young og að sjálfsögðu Chemical Brothers. Ég lét mig hafa að vera á Efterklang þrátt fyrir að þeir væru inni í lokuðu tjaldi þar sem allt allt of margir áhorfendur voru samankomnir og súrefnið af skornum skammti. Frank flúði. Chemical bræðurnir létu mig svo setja enn eitt metið í hoppi og skoppi enda var mér svaðalega illt í fótunum og kálfunum daginn eftir.

Sunnudagurinn var "þreytti fara heim dagurinn" og því sáum við bara eina tónleika og það var með Tina Dickow en það var skítsæm, hún er voða sæt og syngur fallega en tónlistin hennar er frekar boring. Frank þurfti að fara í vinnuna í gær þannig að við urðum að vera komin heim fyrir kvöldið.

Ég var skelfilega þreytt þegar heim var komið og lá rotuð í tólf tíma. Er svo með eitthvað rosalegt kvef akkúrat núna þannig að ég er bara fegin að vera ekkert að vinna. Frank fer svo aftur í sumarfrí á föstudaginn. Planið var að fara til Íslands en við eigum bara ekki pening fyrir því akkúrat núna því flugfarið er alveg í hámarki. Ef það kemur tilboð bráðlega skellum við okkur.

Hef annars fullt af sögum frá Hróaskeldu sem ég læt bíða aðeins og já fullt af myndum. Veit ekki alveg hvað ég geri við þær. Set þær kannski bara á Facebook.

2 comments:

Unknown said...

AAAAAAAAAAAAAAAAAA það var svo ógeðslega GAMAN :) Þessi færsla lýsir alveg fullkomlega vel hvernig þetta var. Mér er ennþá illt í iljunum og er líka komin með kvef og hálsbólgu but it was so worth it!!! Endilega póstaðu myndunum á facebook svo að ég geti séð þær. Ég tók bara 24 myndir á einnota cameru og þær verða sjálfsagt ekkert spesþ Þú gleymdir að minnas á quiz master Frank sem að sá til að við unnum pub quizið á þriðjudeginum :)
ps. er að hlusta á familjen núna og fá gæsahúð hehe...

Anonymous said...

Gaman að heyra af Hróarskeldunni,spurning um að skella sér næsta sumar, en ætli það verði ekki rigning þá og þá yrði ég bara geðvond og leiðinleg. Sjáum til!
Endilega skella myndum inn á Facebook, það er svo gaman að skoða myndir (sérstaklega í vinnunni!)