Tuesday, July 21, 2009

Mismunandi menningarheimar

Þá er maður aldeilis búinn að ferðast og kynnast nýjum hliðum tilverunnar þetta sumarið og enn er fullt eftir!
Skellti mér fyrst til Akureyrar sem er fallegasti bær í fallegasta landi heimsins! ;) Var rosalega heppin með veðrið en það var sól og sumar allan tímann! Geggjað ljúft og pallurinn hjá mömmu var nýttur vel, bara verst að eldhúsið var nálægt þannig að það var non stop át á manni hehe. Ég hitti alveg ótrúlega fallegt og gott fólk sem ég sakna endalaust mikið þannig að ég fyllti á vina og fjölskyldubatteríin sem er nauðsynlegt. Fór meðal annars á ættarmót sem var mjög gaman og ótrúlegt hvað yngstu kynslóðirnar voru búnar að fjölga sér og enn skemmtilegra að sjá að ættaróðalið á Dalvík er fullt af ungu fólki og börnum. Ég stoppaði ekki lengi á ættarmótinu þar sem ég var á leið í brúðkaup hjá frænku minni. Þar hitti ég svo fullt af góðu fólki og fékk alveg frábæran mat. Náði svo heilum tveimur þrítugsafmælum! Allir að fara að gifta sig í sumar þannig að það var gaman að heyra aðeins hvernig undirbúningurinn gekk og svona. Bestu vinkonurnar því allar að annaðhvort að fara að eignast börn eða að fara að gifta sig! Þær fáu sem voru ekki í þeim pakkanum eru að verða þrítugar eða að meika það í borg óttans! Ég talaði örugglega í marga klukkutíma um óléttur og börn og fleira í þeim dúrnum hehe.
Eftir að ég kom heim aftur beið mín heil vika af engu þar sem ég fékk voða mikla heimþrá og langaði ekkert að vera í Danmörku og fannst allir heimskir og leiðinlegir hérna hehe. Svo fór Frank loksins í viku sumarfrí og við fórum í mjög skemmtilegt ferðalag til Vestustrandar Jótlands þar sem foreldrar Franks eiga sumarbústað. Þar voru foreldrar hans og systir sem við eyddum fimm dögum með. Það var fyndið að vera þarna því sumarbústaðurinn er í stóru sumarbústaðaþorpi sem ég myndi kalla "Littla Þýskaland" því 80% af þeim sem þarna búa eru þjóðverjar! Allir að tala þýsku og búðirnar fullar af þýsku skiltum. Við vorum mjög heppin með veður þó spáin hafi verið leiðinlegt og þó það hafi rignt aðeins inni á milli. Ég varð í alvörunni brún sem gerist ótrúlega sjaldan! Litli kútur var eitthvað með vesen og vildi helst bara hvíla lappirnar í rifbeinunum á mér þannig að ég var eitthvað voða þreytt í bakinu og rifbeinunum og gat engann veginn fundið neinar stellingar til að sitja í eða sofa í sem gerði það að verkum að ég var nett orkulaus. Frank og systir hans prófuðu að fara í kajak siglingu og við fórum meðal annars út að borða og kíktum í búðir en það virðist vera að búðarráðp sé alveg málið þarna sem kom mikið á óvart. Auðvitað var ströndin prófuð og við kíktum aðeins á varnaskýli frá því í seinni heimstyrjöld og á smá listasýningu.
Hefði kannski átt að vera búin að skrifa hérna fyrir löngu en svo var mér nefnilega boðið í arabískt brúðkaup sem ég fór í á föstudaginn seinasta. Það var sko ferðalag útaf fyrir sig! Ég verð að segja að það var töluvert meira fjör þarna enn í flestum brúðkaupum sem ég hef verið í. Þetta var aðeins fyrir konur og þær voru mjög léttklæddar og með rosa makeup og mjaðmirnar voru sko ekkert sparaðar í danssporunum!! Rosa flottar konur :) Frá klukkan sjö til um tíu var dansað stanslaust og það eina sem var í boði var smá snakk og gos. Ég bjóst reyndar við aðeins meiri mat en svo um hálf ellefu fengum við öll shawarma. Brúðurin mætti svo á svæðið frekar seint og það var í fyrsta sinn sem ég sé vinkonu mína án þess að vera "hulin" en hún var ekki með slæðu og var í mjög flottum flegnum kjól. Maðurinn hennar kom svo aðeins seinna og þau dönsuðu og skáru tertuna og fleira. Þau voru ótrúlega falleg saman og mjög feimin enda bara 21 árs gömul. Svo aðeins síðar kom restin af körlunum og þá fóru allar konurnar í þvílíku múdderingarnar og settu risa slæður á hausinn og maður átti alveg mjög erfitt með að þekkja þær frá hvor annari. Eftir að karlarnir komu varð allt alveg vitlaust og þeir dönsuðu þvílíkt og svo dönsuðu fjölskyldurnar saman og allir voru rosa glaðir og spenntir. Það var ekkert áfengi í boði enda er það alveg bannað en samt var enginn feiminn eða stífur. Fyndið að við norðurlandabúar þurfum alltaf að vera blindfull til þess að geta skemmt okkur. Ég og þýsk vinkona mín vorum frekar feimnar en létum okkar hafa það að dansa heilan helling sem var geggjað gaman og ég lærði nokkur ný spor ;)
Nú er þetta orðið allt allt of langt !! sorrý ætti að skrifa oftar en nenni því bara ekkert voðalega oft!!