Tuesday, July 31, 2007

Sumarfríið

Sumarið kemur barasta ekkert í Danmörku þetta árið :( Rigning, meiri rigning og aftur rigning. Ég hef samt átt mjög skemmtilegt sumar og get því ekki kvartað mikið. Ég var í sumarfríi sem er eitthvað sem ég fékk einmitt ekki í fyrra en þá var 30 stiga hiti nánast daglega.

Eftir Hróa komu Sólrún og Anna til mín og við skemmtum okkur konunglega! Við fórum að sjálfsögðu beint á djammið þrátt fyrir þreytu og slen. Þynnkan stoppaði okkur svo ekki í að njóta okkar í hjarta bæjarins þar sem kaffihús og búðir voru prófuð. Það var mikið spjallað og hlegið og ég dustaði rykið aðeins af gömlu góðu íslenskunni sem er þarna ennþá.
Vinkonur eru gulls ígildi :)

Mamma og pabbi ásamt Katrínu systur og börnum skelltu sér svo til Danmerkur þann 18.júlí en þau fengu íbúð til leigu í viku í Kaupmannahöfn. Ég fór og hitti þau svo þann 20. og fékk að vera með þeim í íbúðinni. Vegna veðurs var ekki farið í Tivoli og dýragarða heldur Experimentarium, Fields, og svo voru búðirnar rannsakaðar aðeins. Við höfðum það líka gott á kvöldin með bjór í annari og nammi í hinni hehe. Eitt kvöldið hafði ég engan bjór í hönd og fannst Bjarma það alveg ómögulegt og nánast skipaði mér að fara inn í eldhús og sækja mér bjór! Börnin voru náttúrulega bara frábær og ég hló mig máttlausa nánast hvern einasta dag því þau eru svo fyndin. Við fórum til dæmis til Horsens að hitta fjölskylduna hans Franks þar sem börnin náðu að heilla alla þar upp úr skónum. Bjarmi reifst til dæmis við pabba hans Franks sem heitir Max um að hann héti sko ekkert Max heldur Mix! haha. Á Jótlandi var ýmislegt skoðað eins og: Kattegatcentret náttúran og gamlar byggingar, miðbær Horsens og Aarhus og fleira.

Núna er vinnan tekin við sem er bara fínt því nú þekki ég allt þetta fólk sem þýðir að mér líður eins og ég sé að hjálpa vinum mínum og við spjöllum um allt milli himins og jarðar. Það er líka svo krúttlegt hvað gamalt fólk hefur mikinn áhuga á því sem maður er að gera og þeim finnst maður alltaf svo duglegur og frábær. Ef maður opnar krukku til dæmis þá er maður algjör ofurhetja í þeirra augum því það er eitthvað sem þau hafa ekki getað gert í kannski fleiri ár en ég hef lifað ! Nú þarf ég bara að skella mér í smá "afvötnun" þar sem ég reyni að hætta að sukka með mat, nammi og áfengi og reyni að hreyfa mig meira og jafnvel fá mittið mitt aftur !

Góð versló til ykkar allra

Wednesday, July 11, 2007

Blaut skemmtun

Brúðkaup á Samsö
Ferðalagið byrjaði mjög illa en það var hellirigning og ferjan biluð þannig að við þurftum að bíða í pínu litlum bæ í tvo klukkutíma. Við gerðum gott úr því og keyptum bjór og pizzu. Fyrsta nóttin í blautu tjaldi var ekki góð þar sem vindsængin hans Frank var ónýt þannig að hann svaf ekki neitt og ég svaf kannski í 2 eða 3 tíma. Parið var svo gift í mjög krúttlegri gamalli kirkju á ótrúlega fallegum stað á eyjunni. Veislan var fín með góðum mat og nóg af bæði víni og bjór. Haldnar voru margar hjartnæmar ræður þar sem mörg tár fengu að falla. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég hata pínu stórar veislur þar sem ég þekki engann en þetta var svosem ágætt.


Við vorum mjög vel undirbúin undir mikla rigningu og vesen því það er jú alveg ljóst að þegar fröken Kristrún á að sofa í tjaldi rignir alveg pottþétt. Við höfðum rétt fyrir okkur en það rigndi alveg svakalega eins og fólk hefur væntanlega séð í fréttunum. Maður reyndi að sjálfsögðu bara að gera gott úr þessu sem tókst nokkuð vel þar sem við vorum í alveg frábærum vinahópi og ég vil bara þakka þeim fyrir frábæra hátíð ! :)
Við vorum í frekar stórum tjaldbúðum en þar voru til dæmis Siggi x og kærastan hans Lilja, Gunni og Nína og svo Biggi og Guðný frá Akureyri. Við hittum svo Hrönn, Jón og Önnu og Peter og Louise en þau bjuggu á öðrum stöðum en við . Við eyddum í raun ekki miklum tíma á sjálfu tjaldsvæðinu því það var svo mikið af góðri tónlist sem við vildum ekki missa af. Það er samt alltaf erfitt að sjá allt sem manni langar að sjá þannig að stundum var nett stress á manni að plana tónleika, pissuferðir, bjórferðir og vinahitting.

Okkur tókst þó að sjá : 1234, Detektivbyrån, The floor is made of lava, Arcade fire, LCD soundsystem, Björk, The Sounds, Beastie boys, Boris, Queens of the stone age, Annuals, Booka shade, The National, Hayseed Dixie, The Flaming lips, The Who, Red hot chili peppers, Dream of an opium eater, Wilco og Arctic monkeys. Samtals 20 bönd!
Flest af þessu var mjög gott en annað slapt. Nenni ekki að fara djúpt í einhverja gagnrýni þó.


Við vorum mjög ánægð og fegin að komast heim á hreint og gott klósett og hlýtt rúm ! Klósettin á Roskilde eru skandall en í byrjun hátíðar voru kamrarnir yfirfullir þannig að maður gat ekki notað þá og svo í lok hátíðarinnar var enginn klósettpappír neinstaðar og ef maður reyndi að fá pappír frá starfsfólkinu var bara sagt nei. ok smá tuð ! Það var gaman og mig langar að fara aftur á næsta ári en myndi samt hugsa mig tvisvar um ef veðrið verður jafn vont.

Á morgun koma svo ofurgellurnar Sólrún og Anna Þorbjörg og Guð hvað mig hlakkar hrikalega til að sjá þær!!!