Saturday, July 26, 2008

Arhusian Tropic


Þá er sumarfríið officially búið og við komin aftur í íbúðina okkar í Tröjborg. Ég verð að segja að ég kann bara ágætlega við mig í skordýrafrírri íbúð hehe. Ég er nefnilega fóbísk þegar það kemur að því að búa með silfurskottum. Í húsinu í Lystrup var allt morandi í þessu helvíti á neðri hæðinni og ég fékk alveg gæsahúð lengst uppí rassgat!! Ég sakna reyndar litlu loðboltanna minna en við vorum að passa tvo útiketti. Það er algjör snilld fyrir fólk eins og mig sem er með massívt kattarofnæmi því kettirnir eru úti og alla daga og fá matinn sinn úti. Svo þegar manni langar að hanga aðeins með köttunum situr maður bara úti í sólbaði og þeir liggja við hliðina á manni og ætlast ekkert til þess að fá klapp eða knús (vilja það í raun ekki). Fannst svo sætt þegar þeir eltu mig út um allt bara til vera nálægt manni :) Dúllur!




Veðrið er rosalega gott þessa dagana og við ætlum að skella okkur á ströndina í dag. Ég varð reyndar svaðalega þreytt og svimaði helling í gær og steinrotaðist á sófanum þegar við komum heim. Er greinilega ekki alveg nógu vön þessum hita.






Ég er full af áhyggjum því ég fékk algjört sjokk um daginn þegar ég fékk fyrstu útborgunina frá Lín. OMG!! Það er náttúrulega bara geðveiki að vera í námi og fá námslán í íslenskum krónum. sveiattan. Ég sá að ég hef verið að fá um 300 þús á önn þegar ég tók ba heima á klakanum en núna kostar ein önn 630 þús!!! Vá hvað ég hata að skulda og þetta er eina lánið sem ég hef nokkru sinni tekið. Er því sveitt að reyna að finna aðrar leiðir. Er að hugsa um að vinna eins og fífl með skólanum í vetur og sjá hvort mér takist að halda mig frá þessu helvíti. Hvað getur maður annars gert?? Ef ég og Frank værum búin að vera gift í tvö ár gæti ég bara lagst á spenann eins og aðrir Danir en því miður er það ekki í myndinni.







Friday, July 18, 2008

Afslöppun í Lystrup

Við erum búin að vera hérna í sveitasælunni í Lystrup frá því á sunnudaginn, þetta er alveg geggjað næs :) Í staðinn fyrir að kúldrast í pínu litlu íbúðinni okkar í Tröjborg erum við komin í risastórt einbýlishús hérna í Lystrup. Það er geggjað að geta farið á fætur á undan Frank og geta leyft sér að hlusta á útvarpið og gera ýmislegt sem myndi venjulega pirra Frank og halda fyrir honum vöku. Það er ekki alltaf gott fyrir sambandið að búa í bara einu herbergi hehe.

Við höfum brallað ýmislsegt eftir að við komum hingað. Við erum til dæmis búin að fá tengdó í heimsókn sem var rosalega gaman. Við fórum að skoða rústir af eldgamalli höll sem er á lítilli eyju í lítilli vík. Svo fórum við í Randers Regnskov að skoða öll flottu og skemmtilegu dýrin þar. Ég fékk samt nett sjokk þegar ég kom inn í Afríku deildina því við fórum beint að skoða skrítna fiska. Allt í einu voru þessir fiskar, sem eru by the way geggjað ljótir og næstum jafn ljótir og silfurskottur, að reyna að borða á mér lappirnar!! Vá hvað það var creepy!! Þeir komu uppúr á sillu sem var alveg við lappirnar á mér og voru að reyna að ná bita af mér. Svo kemur einhver strákur sem er guide þarna með skál með mat handa þessum fiskum og það eina sem ég sé að mjög langur rottuhali. Þegar hann svo kom nær sáum við risastóra dauða rottu og fullt af litlum músum. Við erum svo að tala um að þessir fiskar átu þessi dýr bara í einum munnbita. OJJJJ ég var drullu hrædd og með geggjaða gæsahúð eftir þetta. Frank fannst það mjög sætt því það gerist ótrúlega sjaldan að ég verði hrædd. Vill þó taka fram að ég var aldrei í neinni hættu þarna hehe. Svo í Asíu deildinni voru sætustu apar í heimi! Þeir eru pínulitlir og með risastór brún augu og andlit sem er ótrúlega líkt manneskju andliti. Ég gæti annars haldið áfram endalaust um þennan regnskóg þarna því það var svo gaman að skoða þetta. Mæli með því fyrir alla sem hafa tækifæri á!

Í gær fórum við í rosalega langan göngutúr alla leið út í IKEA (8 km) sem ég kalla stundum í huganum the city of big bellies því það eru jú allir óléttir þarna haha. Við keyptum einhverja nokkra hluti og borðuðum IKEA mat.
Um helgina ætlum við að fara á Aros safnið sem er núna með flotta sýningum með allskonar flottum tónlistarmyndböndum þar á meðal nýtt Björk myndband sem er í þrívídd. Einnig var hugmyndin að fara jafnvel í bíó.

knús og saknaðarkveðjur

Friday, July 11, 2008

Afmælisdagar


Á meðan á Hróaskeldu stóð átti ég hvorki meira né minna en tvö afmæli! Ég og Frank hittumst á þessum sama stað fyrir fjórum árum síðan , 1.júlí 2004, og áttum við því afmæli :)Ég var búin að steingleyma því þegar Frank óskar mér allt í einu til hamingju með afmælið. Dagurinn var geggjað skemmtilegur en Frank fór á kostum í spurninglaleik sem haldinn var á Skyline barnum á B svæðinu. Við vorum ekki kölluð upp þegar úrslitin voru tilkynnt en Hrönn var sú eina sem tók eftir að við vorum með jafn mörg stig og liðið sem vann! Við fengum því öll ókeypis bjór og voða fína Jack Daniels boli :) Töff!


Hinn afmælisdagurinn var svo að ég flutti til Danmerku 3.júlí 2005 sem þýðir að ég er þriggja ára Dani ;) Ég hélt semsagt ekkert sérstaklega upp á hann og minntist í raun ekki á hann við neinn.


Varúð væminn pistill í aðsigi! Ég lá andvaka í gær og hugsaði um hvað ég er ennþá skotin í honum Frank mínum. Ég bý í landi sem mig langar í rauninni ekkert rosalega mikið að búa í og er í námi sem mér finnst ekkert voðalega skemmtilegt en læt mig hafa það því mig langar að vera með honum Frank mínum og hafa möguleika á að fá vinnu í þessu landi í framtíðinni ef ég verð eitthvað hérna áfram. Við erum reyndar búin að ákveða að Aarhus er ekki framtíðarpleisið og langar að skoða aðra möguleika þegar ég er búin með námið. Svo eftir að Frank slóg í gegn hjá íslensku strákunum á Hróa þá er hann töluvert jákvæðari á að flytja þangað jafnvel ;) Allavega er alltaf bara svo næs og gaman hjá okkur sama hvar við erum. Í kvöld byrjar Frank í sumarfríi og við ætlum að dúllast eitthvað saman tvær næstu vikurnar sem verður örugglega hrikalega næs :)


OG Ofurtöffarinn hann Bjarmi Már Eiríksson er þriggja ára í dag og vil ég óska honum innilega til hamingju með það :)

Tuesday, July 08, 2008

Maraþon parý

Er komin heim frá Roskilde Festivalen!!

Þetta var rosalegasta og lengsta partý sem ég hef nokkru sinni upplifað, enda orðin nett veik. Ævintýrið byrjaði fyrir rúmri viku síðan en við mættum á svæðið seinnipart mánudags. Við tjölduðum í "götunni" við hliðina á Hrönn og Jóni og vorum með nánast alla dagana. Svo bættust við hópur af Íslendingum sem þau þekkja sem við héngum með. Þau voru svona líka hrikalega skemmtileg eins og Íslendingum sæmir ;) Fyrir forvitna heita þau: Rut, Haddi, Guggi, Doddi og Einsi. Við eigum líka flottar myndir af þeim.

Fyrsta kvöldið var rólegt en við fórum í Hróaskeldu bíó á spennandi spænska mynd og gæddum okkur á poppi. Veðrið var geðveikt gott alla dagana þannig að á daginn var sólin sleikt og bjórinn teygaður. Þó að sjálf hátíðin byrji ekki fyrr en á fimmtudeginum þá er tónlist alveg frá því hátíðin opnar á sunnudeginum. Við sáum nokkur skemmtileg bönd eins og Slagsmålsklubben, When saints go machine, Casiokids og íslensku grúppuna Bloodgroup sem stóð algjörlega uppúr. Söngkonan er gella dauðans og getur sungið mjög vel þrátt fyrir mikil hopp og dans á sviðinu. Ég hef aldrei áður upplifað Hróaskeldu í góðu veðri þannig að þetta var alveg nýtt fyrir mér og mjög spennandi. Það er mjög gaman að mæta snemma á hátíðina ef það er gott veður og djamma og chilla áður en tónlistarstressið byrjar. Ég skemmti mér konunglega!!

Sjálf hátíðin var svo opnuð á fimmtudeginum og Radiohead spiluðu um kvöldið, VÁ hvað það var geðveikt! Ég vissi að þeir væru góðir því þeir hafa verið í miklu uppáhaldi hjá mér í mörg, mörg ár en ég vissi ekki að þeir væru svona rosalega góðir á tónleikum. Bestu tónleikar sem ég hef verið á. Stemningin á tónleikunum var líka ótrúlega sérstök því allir urðu bara svo glaðir og maður sá fólk faðma hvort annað þó það þekktist ekki neitt og allir voru með væmið bros á vör :)

Föstudagurinn var sá dagur sem ég og Frank sáum flesta tónleika, alls átta tónleika, stress! Ég ætla svosem ekkert að dæma alla en bara taka það sem stóð uppúr. Band of horses og Goldfrapp voru þær hljómsveitir sem mig hlakkaði mest til að sjá. Raunin varð svo að þetta voru líka bestu tónleikar dagsins. Söngvarinn í Band og horses er bara svo mikið krútt og yndislegur og tónlistin mjög falleg. Frank varð mjög hrifinn af Goldfrapp en hann þekkti þau ekkert mjög vel fyrir hátíðina. Það var líka rosalega gaman að fylgjast með Nick Cave í Michael Jackson jakkanum sínum með pornóstar lookið sitt þylja perralega texta: Get it on og ohh yeahhh haha. The Streets voru góðir og létu áhorfendurna gera allskonar kúnstir eins og: faðma hvorn annan og fara úr að ofan og setjast niður. Kvöldið var svo endað á tónleikum sem byrjuðu klukkan þrjú um nóttina með sænskum gaur sem kallar sig Familjen. Það var fáránlega skemmtilegt og ég setti met í að hoppa og dansa eins og villingur. Það þurfti að stoppa tónleikana í smá stund því sumir hoppuðu of mikið og þótti öryggisvörðunum það vera hættulegt.

Laugardagurinn var of heitur og maður sá að fólk var að verða ansi þreytt og þegar sólin faldi sig bakvið ský heyrðust þvílík fagnaðarlæti frá fólki hehe. Það sem stóð uppúr á þessum degi var Efterklang, Judas Preist fyrir að vera eighties töffari, Neil Young og að sjálfsögðu Chemical Brothers. Ég lét mig hafa að vera á Efterklang þrátt fyrir að þeir væru inni í lokuðu tjaldi þar sem allt allt of margir áhorfendur voru samankomnir og súrefnið af skornum skammti. Frank flúði. Chemical bræðurnir létu mig svo setja enn eitt metið í hoppi og skoppi enda var mér svaðalega illt í fótunum og kálfunum daginn eftir.

Sunnudagurinn var "þreytti fara heim dagurinn" og því sáum við bara eina tónleika og það var með Tina Dickow en það var skítsæm, hún er voða sæt og syngur fallega en tónlistin hennar er frekar boring. Frank þurfti að fara í vinnuna í gær þannig að við urðum að vera komin heim fyrir kvöldið.

Ég var skelfilega þreytt þegar heim var komið og lá rotuð í tólf tíma. Er svo með eitthvað rosalegt kvef akkúrat núna þannig að ég er bara fegin að vera ekkert að vinna. Frank fer svo aftur í sumarfrí á föstudaginn. Planið var að fara til Íslands en við eigum bara ekki pening fyrir því akkúrat núna því flugfarið er alveg í hámarki. Ef það kemur tilboð bráðlega skellum við okkur.

Hef annars fullt af sögum frá Hróaskeldu sem ég læt bíða aðeins og já fullt af myndum. Veit ekki alveg hvað ég geri við þær. Set þær kannski bara á Facebook.