Thursday, March 19, 2009

Fréttapakki

Margt hefur drifið á mína daga frá því ég skrifaði síðast. Ég fór í smá bæjarferð til Kaupmannahafnar frá sunnudegi til þriðjudags. Því miður var þetta ekki aflöppunarferð heldur námsferð en markmiðið var að læra að nota ADIS viðtalstækni sem er notuð á börn og foreldra þegar greina á geðraskanir og þá sérstaklega kvíðaraskanir. Það var æðislegt að fá að hitta fólk í háskólanum í Kaupmannahöfn og spjalla við þau. Ég náði að spjalla mjög náið við nokkrar frábærar konur og ein knúsaði mig bless sem yljaði mér um hjartarætur. Ég var líka hissa á því hversu vel mér gekk að rata um borgina en ég hef alltaf verið hrædd við að ferðast þarna því ég á mjög, mjög auðvelt með að villast haha. Það besta við þessa ferð var þó að hitta Gunna, Nínu og Axel litla. Þau eru náttúrulega bara hugguleg! Axel er lítill krúttkroppur að fá uppí rúm til sín snemma á morgnana og virkar eins og vítamínpilla á sálina. Mér tókst svo að kíkja vitlaust á netið og fór því með rangri rútu heim til Aarhus sem þýddi að ég þurfti að fara með ferjunni til Ebeltoft og svo þaðan með strætó til Aarhus en það var í fínu lagi hehe.

Í gær fór ég í fyrsta skiptið til ljósmóður og hún útskýrði ýmislegt fyrir mér sem ég ekki vissi! Til dæmis vissi ég ekki að legið væri vöðvi sem stækkar alveg ótrúlega mikið á meðgöngunni og verður að lokum að stærsta vöðva líkamans! halelúja! Mitt nær núna uppa að nafla, fyndið. Hún gat því miður ekki hjálpað mér með praktísk atriði eins og að svara hvort barnið mitt verði íslenskur eða danskur ríkisborgari. Mér sýnist þó á reglunum að barnið verði danskur rískisborgari því það er fætt hérna og því pabbinn er danskur. Við erum aðeins að gæla við hugmyndina að skíra heima en ég veit ekkert hvort það megi. Reyndar eru þetta hlutir sem maður þarf svosem ekkert að missa svefn yfir akkúrat núna þar sem við erum að verða pínu stressuð yfir því að finna íbúð til að búa í. Sá svo lista um daginn yfir hluti sem maður þarf að eiga þegar maður eignast barn og úff hvað maður þarf að fara að leggja höfuðið í bleyti þar svo ekki sé talað um að ég hef engin fæðingarorlofsréttindi hvorki hér né á Íslandi. Ætla að demba mér í að komast til botns í ýmsu sem fyrst. Það getur sko verið flókið mál að blanda geði(genum) við útlendinga.

Er að fara á annað námskeið á morgun og á laugardaginn sem gengur út á að læra að greina myndbönd með pörum sem eiga að leysa stærsta vandamál sambandsins. Það er víst hægt að spá með 90% öryggi hvort fólk eigi eftir að skilja eftir aðeins 10 mínútur af svona myndbandi!! pæliði í því! Þetta er stór rannsókn sem gengur út á að komast að því hvaða þættir eru áhættuþættir í sambandslitum eftir að pör eignast sitt fyrsta barn. Takmarkið er svo að prófa paranámskeið sem ganga út á að kenna fólki að vinna saman og það er líka hugsað fyrir þá foreldra sem ekki eru saman lengur en þurfa að vinna saman að barnauppeldinu. Þetta verður líklegast mjög skemmtilegt en erfitt verkefni. Ég mun semsagt vinna í þessu næstu 7 til 12 vikurnar. Þetta á vonandi eftir að kenna mér ýmislegt um að leysa öll vandamálin sem eiga eftir að koma upp á milli mín og Frank :) Loksins, loksins er verknámið mitt að verða pínu spennandi, úff hvað það er búið að vera vibbalega leiðinlegt hingað til.

Vonandi heldur sólin áfram að skína á okkur hérna í Aarhus því það er bara svo notalegt!

Tuesday, March 10, 2009

Hamingja á bænum

Nenni varla að afsaka mig endalaust fyrir bloggletina. Við höfum haft nóg um að hugsa seinustu vikur og mánuði. Við erum að undirbúa okkur undir foreldrahlutverkin í fyrsta sinn :) Við erum heilum helling hamingjusamari og full af tilhlökkun. Það er gaman að það sé alltaf eitthvað nýtt og skemmtilegt að gerast. Óþekktir draumar og vonir poppa upp þegar maður á síst von. Við erum bæði hætt að drekka áfengi sem gerir líf okkar mjög rólegt og þægilegt :) Vildi að ég hefði hætt að drekka fyrir mörgum árum!! Við vitum ekki hvort kynið krílið er enda alveg sama. Ég er bara mest spennt að það hafi það gott að komi í heiminn á réttum tíma. Finnst líka eitthvað pínu skrítið að vita kynið því ég er frekar mikill jafnréttissinni og finnst ekki að maður eigi að missa sig í bleiku eða bláu áður en barnið er komið í heiminn. Frank heimtar þó að fá að vita kynið þannig að við munum líklegast vita það næst þegar ég fer í sónar um miðjan apríl.

Líka gaman að því að ég er ekki sú eina sem er að fara að eignast barn í september. Ætla nú samt ekkert að gefa upp nein nöfn hérna en þið vitið hver þið eruð ! haha :)

knús